Gjöf afhent Grensásdeild

Grensásdeild Landspítalans er sem fyrr aðal styrkþegi Svalanna.

Nýlega voru afhentar gjafir að fjárhæð um ein og hálf milljón króna. Að þessu sinnu voru það þrír rafdrifnir leðurstólar og loftafest lyftukerfi. Stuðningur Svalanna við deildina er mikils metinn og var þeim vel þakkað fyrir þessar gjafir. Það var Guðrún Ólafsdóttir fráfarandi formaður Svalanna sem afhenti gjafabréfið en fyrir hönd Grensásdeildar veittu móttöku þau Guðrún Karlsdóttir, Jónína Thorarensen og Páll E. Ingvarsson.

Styrktargjöf til Grensásdeildar

Grensásdeild Landspítalans hefur um árabil verið aðal styrkþegi Svalanna. Nýlega afhenti stjórnin veglega gjöf sem mikil þörf var á, þe. blóðþrýstingsmæla og lífsmarkatæki fyrir legudeild. Sigríður Guðmundsdóttir, deildarstjóri hjúkrunar veitti gjöfinni formlega viðtöku fyrir hönd Landspítalans og hrósaði Svölunum mikið fyrir sitt framlag. Þessi gjöf kæmi sér m.a. einstaklega vel nú á tímum covid, þar sem ekki þyrfti að sótthreinsa hvern mæli nema einu sinni á sólarhring fyrir utan tímasparnaðinn sem fælist í því að hafa einn mæli fyrir hvern sjúkling.
Félagsmenn í Svölunum greiða árlegt gjald í styrktarsjóðinn og er það nú eina innkoma hans, þar sem sölu jólakorta hefur nánast verið hætt. Þeir sem vilja styrkja Grensásdeildina gegnum Svölurnar geta lagt framlag sitt inn á reikning Svalanna:
Kt. 5701770959
Banki: 0313 13 300007

Sigríður Guðmundsdóttir og Guðrún Ólafsdóttir formaður Svalanna „handsala“ afhendingu gjafarinnar.
Frá formlegri afhendingu styrktargjafar Svalanna til Grensás

Gjöf afhent Hjálpræðishernum

15. desember 2020 afhentu Svölurnar Hjálpræðishernum gjafabréf að upphæð 500.000.

Birna Dís Vilbertsdóttir ásamt stjórn Svalanna við nýskreytt jólatré í samkomusal Hjálpræðishersins.

Í tilefni afhendingar var stjórninni boðið að koma og skoða ný og glæsileg húsakynni í Mörkinni í Reykjavík. Það var Birna Dís Vilbertsdóttir sem tók á móti okkur og fræddi hún okkur um þá miklu og göfugu starfsemi sem Hjálpræðisherinn heldur uppi. Það hófst starfsemi í húsinu í september sl. en það er enn verið að „fínpússa“ og nokkuð í að allt verði tilbúið innanhúss. Þau hafa fengið leyfi til að halda uppi árlegum jólafagnaði á aðfangadag og mun allt fara fram skv. sóttvarnareglum sem ákveðnar voru í samráði við Þórólf sóttvarnalækni.

Guðrún Ólafsdóttir formaður Svalanna afhentir Birnu Dís gjafabréfið.
Málin rædd í nýja Herkastalanum.

Okkur var þakkað vel og innilega og fullvissaðar um að gjöfin kæmi sér einstaklega vel þetta árið. Við þökkum Birnu Dís fyrir hlýjar móttökur og óskum starfsfólki og öllum aðstandendum Hersins alls hins besta í nýju húsakynnunum.

Félagsfundir veturinn 2019 – 2020

Allir félagsfundir Svalanna í vetur, nema aðalfundur, verða haldnir á Nauthóli og hefjast klukkan 18. Þetta eru kvöldverðarfundir og er verð á máltíð (fiskréttur og eftirréttur ásamt kaffi) 3.200 kr. til félagsmanna. Nauthóll býður vínglasið á 1000,-

Félagsmenn sem mæta á fundi eru beðnir um að skrá sig fyrirfram, þannig að hægt sé að panta rétt magn af veitingum. Minnt er á alla fundi með góðum fyrirvara, bæði með netpósti og einnig inn á lokaðri fésbókarsíðu Svalanna.

http://www.facebook.com/groups/svolurnar

15. október 2019

5. nóvember 2019

3. desember 2019

4. febrúar 2020

3. mars 2020

7. apríl 2020

Vorferðalag og aðalfundur verða um miðjan maí – dagsetningar auglýstar síðar.