Lög félagsins

1. gr. Nafn

Félagið heitir SVÖLURNAR, GÓÐGERÐARFÉLAG FLUGFREYJA OG FLUGÞJÓNA. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík

2. gr. Tilgangur

Tilgangur félagsins er að viðhalda tengslum meðal starfandi og fyrrverandi flugfreyja / flugþjóna m.a. með fundarhöldum, skemmtikvöldum og ferðalögum. Ennfremur að vinna að auknum skilningi á málefnum þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu og reyna að aðstoða þá með fjárframlögum úr styrktarsjóði félagsins eða á annan hátt, eftir því sem hagur styrktarsjóðsins leyfir.

3. gr. Félagsaðild

Rétt til inngöngu í félagið hafa fyrrverandi og starfandi flugfreyjur/ flugþjónar, sem vilja leggja málefnum félagsins lið. Inntökubeiðni skal samþykkja af stjórn félagsins, til þess að hún öðlist gildi. Hafi félagi ekki greitt félagsgjöld í þrjú ár hefur stjórnin heimild til að taka hann út af félagaskrá en áður hefur viðkomandi verið send skrifleg ítrekun.

4. gr. Aðalfundur

AAðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfund skal halda innan sex mánaða frá lokum reikningsárs ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað.
Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé getið í samþykktum þessum.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár lögð fram til umræðu.
  2. Endurskoðaðir reikningar fyrir liðið reikningsár með athugasemdum endurskoðanda lagðir fram til umræðu og afgreiðslu.
  3. Kosning stjórnar.
  4. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga, sbr. 9. grein.
  5. Kosning nefnda
  6. Ákvörðun félagsgjalda félagsgjalda og framlög í styrktarsjóð sbr. 10. grein.
  7. Breytingar á samþykktum félagsins
  8. Önnur mál.

5. gr. Fundarstjórn

Hverjum aðalfundi stýrir kjörinn fundarstjóri. Hann kannar í fundarbyrjun hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og lýsir því hvort svo sé. Atkvæðagreiðsla fer eftir því sem fundarstjóri kveður nánar á um. Skrifleg atkvæðagreiðsla skal þó fara fram, krefjist einhver mættra félagsmanna þess.

6. gr. Stjórn, stjórnarkosning og verkefni stjórnar

Stjórn félagsins skal kosin til eins árs í senn og skal vera skipuð 5 mönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og 1 meðstjórnanda. Einnig skal kjósa 2 varamenn. Formann skal kjósa sérstaklega. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.
Stjórn félagsins fer með málefni félagsins á milli aðalfunda. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
Stjórnarfundi skal halda að minnsta kosti einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina og oftar ef meiri hluti stjórnar óskar eftir því. Stjórnarfundi skal boða með sannanlegum hætti og með þriggja daga fyrirvara, ef unnt er. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnar er mættur. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns) úrslitum. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar
.

7. gr. Félagsfundir

Almennir félagsfundir skulu að öðru jöfnu haldnir mánaðarlega tímabilið 1. október til 30. apríl að janúarmánuði undanskildum. Heimilt er að kjósa fundarstjóra á félagsfundum. Fundargerðir skulu ritaðar í fundarbók.
Á hverjum fundi rita félagar nöfn sín í bók, sem liggur frammi
.

8. gr. Nefndir

Stjórninni er heimilt að skipa nefndir er vinni að tilteknum málum, í samráði við hana. Ef fjáröflunarnefnd er starfandi ber henni að leggja allar tillögur sínar til samþykktar stjórnar.

9. gr. Reikningsár og endurskoðun

Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31.desember ár hvert. Tveir skoðunarmenn úr hópi félagsmanna skulu kosnir á aðalfundi og skulu þeir yfirfara reikninga félagsins og gera sínar athugasemdir um þá.

10. gr. Félagsgjöld og framlög í styrktarsjóð

Á aðalfundi skal ákveða félagsgjald fyrir komandi starfsár og greiðist það í upphafi hvers almanaksárs. Það skal renna í sérstakan sjóð og ávaxtað með sem hagkvæmustu kjörum t.d. á verðtryggðum reikningi. Fé úr sjóðnum skal nota í þágu félagsmanna eftir ákvörðun félagsfundar. Samþykki meirihluta mættra félaga þarf, ef nota á meira en 1/3 af ráðstöfunarfé sjóðsins til ákveðinna verkefna. Ágóði af félagsfundum skal renna í sjóð þennan. Á sama hátt skal ráðstafa halla af félagsfundum úr sjóðnum.
Framlög í styrktarsjóð ákveðin á aðalfundi hvers árs. Framlög skulu innheimt tvisvar á ári í maí/júní og október/nóvember hvert ár.
.

11. gr. Fjáröflun og ráðstöfun tekna félagsins

Fjáröflunarleiðir skulu ákveðnar á félagsfundi hverju sinni og þarf samþykki meirihluta mættra félaga til að þær nái fram að ganga. Fé allra sjóða á vegum félagsins skal jafnan ávaxta á tryggan og hagkvæman hátt t.d. á verðtryggðum reikningi. Stjórn félagsins skal leggja fram tillögur til almenns fundar í félaginu varðandi styrkveitingar til félagssamtaka eða einstaklinga. Til styrkveitingum og peningagjöfum umfram eina milljón þarf samþykki meirihluta mættra félaga á félagsfundum.
Stjórn hefur heimild til að ráðstafa allt að einni kr. milljón úr styrktarsjóði félagsins til gjafa án þess að leggja fyrir félagsfund, sbr. samþykkt aðalfundar árið 2023.
.

12. gr. Breytingar á samþykktum félagsins

Samþykktum félagsins verður aðeins breytt á lögmætum aðalfundi, og þarf 2/3 hlutar mættra félagsmanna að greiða atkvæði með breytingu til að hún öðlist gildi. Tillögur að breytingum verða að berast stjórn félagsins þremur vikum fyrir aðalfund til að hægt sé að geta þeirra í fundarboði.

13. gr. Slit félagsins.

Tillaga um félagsslit skal koma fram í fundarboði til aðalfundar. Til þess að slíta félaginu þarf samþykki 2/3 hluta skuldlausra félagsmanna á löglega boðuðum aðalfundi. Verði tillagan samþykkt skal boða til framhaldsaðalfundar til slita félaginu. Verði félagið lagt niður skal eignum þess ráðstafað til líknarmála.

Lög samþykkt á aðalfundi Svalanna 5. maí 2024.