Einstaklingar

Svölurnar hafa styrkt einstaklinga sem til þeirra leita, en hvert erindi þarf að skoða sérstaklega og eru takmarkanir í reglum félagsins varðandi þessa styrki.

Nýlegir styrkir

Styrkur til AHC samtakanna á Íslandi

Nýlega afhentu Svölurnar styrk til AHC samtakanna á Íslandi að upphæð 250.000 kr. Styrkurinn var afhentur á heimili Sunnu Valdísar Sigurðardóttur, en hún er eini Íslendingurinn sem greinst hefur með AHC sjúkdóminn. Það voru foreldrar Sunnu, þau Sigurður H. Jóhannesson og Ragnheiður Erla Hjaltadóttir sem veittu honum viðtöku en þau standa fyrir ATP1A3 málþingi sem haldið verður í Reykjavík 3.-4. október nk.

Frá afhendingu styrksins.
Sigurður, Guðrún, Guðmunda og Ragnheiður Erla

Í desember 2017 var Ernu Gunnþórsdóttur og Óla Rúnari Jónssyni veittur styrkur frá Svölunum  að upphæð kr.500.000.
Erna heimsótti Svölurnar í Hreiðrið (skrifstofa Svalanna) ásamt Rökkva litla nú í haust og veitti gjafabréfinu móttöku.

Guðrún Ólafsdóttir, formaður Svalanna afhendir gjafabréfið

Hér er þakkarbréf frá Ernu sem barst okkur fyrir skömmu.

„Takk fyrir að hafa hjálpað mér og fjölskyldu minni þegar við eignuðumst alvarlega veikt barn og vorum landföst á sjúkrahúsi í austur evrópu vikum saman með öllum þeim kostnaði sem því fylgir. Ykkar góðmennska og starf urðu til þess að fjárhagsáhyggjur vegna sjúkrahúsdvalarinnar voru ekki eins þungbærar og óyfirstíganlegar eins og annars hefði orðið og ég get ekki lýst þakklæti mínu vegna þessa. Með kærri þökk, Erna, Óli Rúnar, Jón Ingi, Gunnþór og Rökkvi litli.“

Rökkvi litli á spítalanum.

Hjálparhundur

Haustið 2017 barst Svölunum beiðni um styrk fyrir 6 ára dreng sem heitir Helgi Örn. Hann er einhverfur og með CP.   Foreldrarnir óskuðu eftir styrk til þess að fjárfesta í hjálparhundi.
Beiðni um styrkinn var borin upp á félagsfundi s.l. október og var einróma samþykkt af félagskonum að veita Helga Erni styrk að upphæð kr .500.000.
Í upphafi árs 2018 var Rut Westmann, móður Helga Arnar, afhent gjafabréfið á skrifstofu Svalanna.
Hún biður innilega að heilsa Svölunum með kæru þakklæti.

Styrkur til fyrrverandi flugfreyju

Guðrún Ólafsdóttir formaður Svalanna afhenti formlega fyrr á árinu styrktargjöf Svalanna til Guðnýjar Sveinbjörnsdóttur, fyrrverandi flugfreyju hjá Icelandair, sem nú dvelur á hjúkrunarheimilinu Mörkinni.

Það er Anna Dís Sveinbjörnsdóttir, systir Guðnýjar sem er með þeim á myndunum og að hennar sögn er Guðný mjög ánægð með stólinn og nýtur þess að sitja í honum, en hann er ma. sérútbúinn þannig að auðvelt er að færa hann milli staða. Anna Dís vildi koma á framfæri innilegum þökkum til Svalanna fyrir þessa góðu gjöf.