Tilgangur félagsins er tvenns konar; í fyrsta lagi að viðhalda kunningsskap og vináttu starfandi og fyrrverandi flugfreyja og flugþjóna og í öðru lagi að láta eitthvað gott af sér leiða.
Allir þeir sem starfa, eða hafa starfað, sem flugfreyjur eða flugþjónar eru velkomnir í félagið. Því fleiri Svölur því öflugra verður starfið og unnt að veita fleiri góðum málum lið.
Fundir félagsins eru kvöldverðarfundir, skemmtilegir og fræðandi, haldnir fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrarmánuðina frá október fram í maí, að janúarmánuði undanskildum. Vorferð Svalanna er venjulega farin um miðjan maí og hefur hefð skapast fyrir því að aðalfundur er haldinn í ferðinni.
Undanfarin ár hefur aðalfjáröflunarleið félagsins verið sala jólakorta, gjafakorta og minningakorta. Nú hefur sölu jólakorta verið hætt, en tækifæriskortin eru enn til sölu. Frá því félagið var stofnað hafa Svölurnar styrkt fjölmörg félög og einstaklinga. Þessi þáttur starfsins er mjög gefandi og ánægjulegt að félagið geti lagt sitt af mörkum til góðra mála.